sjois.jpg (27711 bytes)


Skýrsla stjórnar SJÓÍS fyrir starfsárið 2005

Ágætu félagar!

Aðalfundur fyrir starfsárið 2004 var haldinn 30. apríl 2005 og voru eftirtaldir kosnir í stjórn:

Stjórn og nefndir
Í stjórn: Þórir Sveinsson, formaður
Hávarður Bernharðsson, ritari
Sigríður Jóhannsdóttir, gjaldkeri.
Í varastjórn: Oddur Bjarnason og Gunnar Þorgilsson.
Skoðunarmenn reikninga: Jósefína Gísladóttir og Úlfar Ágústsson.

Starf stjórnar og félagsstarfið
Alls voru haldnir þrír bókaðir fundir í stjórn auk nokkurra óbókaðra funda mótsstjórnar á síðasta starfsári.
Meginstarf stjórnarinnar á árinu var að skipuleggja 20 ára afmælismót félagsins sem haldið var í byrjun í júlí svo og innanfélagsmótið í júní. Sérstaklega verður fjallað um þessi mót síðar í skýrslunni. Félagatala í Sjóís var við síðustu skráningu í byrjun apríl 2006 alls 30 félagar.
Sjóís tekur virkan þátt í starfsemi Landssamtaka sjóstangaveiðifélaga og var formaður Sjóís ritari Sjól á liðnu starfsári en gekk úr stjórn á aðalfundi landssambandsins 1. apríl sl.
Fluguhnýtingardagur var haldinn 8. apríl sl. og tóku sex þátt. Bundnar voru margvíslegar og fjölmargar flugur og má vænta að margar þeirra munu veiða drjúgt í sumar.
Að öðru leyti var starfið með hefðbundnu sniði.

Mót 2005 og þátttaka Sjóís-félaga
Aðalmótin átta á vegum Sjól, Landssambands sjóstangaveiðimanna, voru frá Grundarfirði, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Akranesi, Bolungarvík, Ólafsvík, Siglufirði og Dalvík. Alls tóku 181 einstaklingur, 34 konur og 147 karlar, þátt í mótum Sjól sumarið 2005. Árið áður voru einstaklingarnir 203, 52 konur og 151 karl. Róið var á 112 bátum og voru keppendur alls 393 sem þýðir að hver einstaklingur hefur tekið þátt í rúmlega tveimur mótum. Rúm 162 tonn veiddust og voru taldir 88.244 fiskar borið saman við 195 tonn og 106.340 fiska árið áður. Öllum afla var landað óslægðum og er þetta þriðja árið sem sá háttur er hafður á og hefur almennt notið vinsælda hjá keppendum.

Félagar í Sjóís kepptu á öllum mótum Sjól utan eins og var fjöldi og afli eftirfarandi:

Keppnisstaður Félag Dags. Fj. frá Sjóís Afli í kg. Fiskar
Grundarfjörður Sjór 6.-7. maí 2 1.104,26 632
Vestmannaeyjar Sjóve 14.-15. maí 1 265,05 111
Neskaupstaður Sjónes 3.-4. júní 3 2.182,65 1.125
Akranes Sjóskip 17.-18. júní 2 488,12 336
Bolungarvík Sjóís 1.-2. júlí 9 2.453,1 1.370
Ólafsvík Sjósnæ 15.-16. júlí 1 307,3 180
Siglufjörður Sjósigl 29.-30. júlí 0 0 0
Dalvík Sjóak 12.-13. ágúst 2 898,43 502
Alls 20 7.698,91 4.256

20 félagar Sjóís veiddu alls rúma 4.200 fiska sem vógu tæp 7,7 tonn borið saman við 28 stangir 2004 sem veiddu tæpa 8.300 fiska og sem vógu tæp 15,5 tonn. Félagið greiddi keppnisgjöld fyrir félaga sína á öll mótin utan heimamótsins auk þess að ferðastyrkir voru veittir í flestum tilfellum. Auk þessa útvegaði félagið félögum sínum sökkur, veiðigirni og öngla án endurgjalds. Fyrir liggur að steypa sökkur í ýmsum stærðum og gerðum á sama hátt og í fyrra.

20 ára afmælismót Sjóstangaveiðifélags Ísfirðinga.
Sjóís hélt uppá 20. ára afmælið með veglegum hætti með stórmóti sem haldið var föstudaginn 1. og laugardaginn 2. júlí 2005 þar sem metfjöldi tók þátt eða 57 keppendur, 13 konur og 44 karlar, frá átta félögum og EFSA Íslandsdeild evrópskra sjóstangaveiðimanna. Alls veiddust 11.639 fiskar sem vógu 20.937,19 kg. eða 367,32 kg. að meðaltali á veiðistöngina. Níu tegundir veiddust; þorskur, ufsi, ýsa, karfi, steinbítur, sandkoli, lúða, lýsa og marhnútur.
Fimm Sjóís tegundarmet voru slegin í mótinu. Þorskur sem vóg 21,170 kg. veiðimaður Sverrir S. Ólason Sjósigl, ufsi 9,270 kg. veiðimaður Arnar Kristjánsson Sjóís, steinbítur 8,100 kg. veiðimaður Þórir Sveinsson Sjóís, lýsa 0,930 kg. veiðimaður Friðrik Yngvason Sjóak og koli 0,640 kg. veiðimaður María Þórarinsdóttir Sjóís.

Sveit frá Sjóak sigraði í sveitarkeppni kvenna með 1.636 kg. Önnur varð sveit frá Sjóís með 1.179 kg. og þriðja blönduð sveit frá Sjósigl og Sjóskip með 979 kg. Í karlaflokki sigraði sveit frá Sjósigl með 1.961 kg. Í öðru sæti varð sveit frá Sjóak með 1.732 kg. og í þriðja sæti sveit frá Sjósigl með 1.668 kg.
Í einstaklingskeppni kvenna sigraði Guðrún Jóhannesdóttir, Sjóak með 649 kg. Í öðru sæti varð Magnea Guðfinnsdóttir, Sjóís með 380 kg. og í þriðja sæti Katrín Gísladóttir, EFSA með 353 kg.
Í einstaklingskeppni karla sigraði Pétur A. Unason, Sjósigl með 753 kg. Í öðru sæti varð Guðmundur Svavarsson, Sjór með 666 kg. og í þriðja sæti Þorsteinn Jóhannesson, Sjósigl með 630 kg.
Fjölmörg verðlaun voru veitt, s.s. fyrir sveita- og einstaklingskeppni, fyrir stærstu fiska einstakra tegunda, fyrir stærsta fisk mótsins, til aflahæsta heimamannsins, fyrir flestar veiddar tegundir og hæstu meðalþyngd. Aukaverðlaun voru veitt fyrir að slá út gildandi Sjóís-met, fyrir tölvudregna sveit, til yngsta og elsta þátttakandans talið í keppnisárum og til getspakasta keppandans sem komst næst því að giska á réttu þyngd metfisksins í mótinu.

Aflahæsti skipstjórinn varð Sigurður Hjartarson og áhöfn hans á Sjófugli með 1.717 kg. eða 572 kg. að meðaltali á veiðistöngina. Í öðru sæti varð Guðmundur Jakobsson og áhöfn hans á Neista með 1.543 kg. eða 514 kg. að meðaltali á veiðistöngina. Í þriðja sæti varð Ketill Elíasson og áhöfn hans á Glað með 1.537 kg. eða 512 kg. að meðaltali á veiðistöngina.

Sjóís, sem stofnað var 7. nóvember 1984, hélt uppá afmælið með því bjóða uppá viðbótar atburði umfram hefðbundna dagskrá, t.d. fóru keppendur og aðrir gestir á föstudagskvöldið í rútuferð í eyðifjörðinn Skálavík þar sem notið var veitinga í mat og drykk og brekkusöngur ómaði við gítarspil og varðeld í fjöruborði. Keppendum var gefin gjöf frá félaginu, gogg með áletruðu nafni keppandans og fyrir hvaða félag hann keppir svo og nýtt barmmerki Sjóís. Veislustjóri í lokahófi, sem haldið var í Víkurbæ, Bolungarvík, var Úlfar Ágústsson og hljómsveitin Stuðmenn léku fyrir dansi. Það var álit flestra að afmælismótið hafi heppnast í alla staði hið besta; almenn ánægja var með skipulagningu og fyrirkomulag keppninnar og aðra atburði í tengslum við mótið.

Innanfélagsmót félagsins var haldið laugardaginn 11. júní með þátttöku 13 veiðimanna á fjórum bátum. Róið var frá Bolungarvík kl. 10.00 og komið að landi kl. 16.00. Veitt var í blíðviðri og sléttum sjó undan Aðalvíkinni, undir Stigahlíðinni og á Deildinni. Alls veiddust 1.999 kg. að mestu þorskur og ufsi, fáeinar ýsur og ein smálúða. Aflahæsti veiðimaðurinn var Friðrik Stefánsson með 241 kg. Aflahæsti skipstjórinn var Guðmundur Jakobsson á bátnum Neista með 568 kg. eða 189,33 kg. á meðalstöngina. Um borð auk Guðmundar voru veiðimennirnir Friðrik Stefánsson, Víðir Benediktsson og Hávarður Bernharðsson.

Niðurlag
Liðið afmælisár var félaginu hagsstætt, glæsilegt afmælismót var haldið með metfjölda þátttakenda, mikill afli kom að landi og fjárhagur félagsins er með ágætum.
Afla var landað óslægðum í land í öllum mótunum átta sem léttir til muna vinnuálagið af keppendum og bætir meðferð aflans.
Á árinu var nýr gagnagrunnur landssambandsins tekinn í notkun þar sem aflatölur voru skráðar inná sameiginlegan gagnagrunn í gegnum heimasíðu Sjól sem flýtti allri úrvinnslu talna og hægt er að skoða heildarstöðuna jafnóðum og nýjar upplýsingar eru slegnar inn.
Á komandi sumri hvet ég alla félagsmenn til að taka vikan þátt í störfum félagsins svo og að sækja sem flest mót á hinum ýmsum stöðum á landinu.

Að lokum vil ég þakka meðstjórnendum mínum og öðrum þeim sem starfað hafa fyrir félagið gott samstarf á liðnu starfsári.

5. maí 2006
f.h. stjórnar Sjóís, Þórir Sveinsson, formaður.